Erlent

Al Gore og loftlagsnefnd SÞ fá friðarverðlaun Nóbels

Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og alþjóðleg nefnd Sameinuðu þjóðanna um loftlagsmál, fá friðarverðlaun Nóbels í ár. Þetta var tilkynnt í Osló nú rétt í þessu.

Verðlaunin hljóta Gore og loftlagsnefndin fyrir að vekja athygli á þeirri hættu sem loftlagsbreytingar geta valdið. Al Gore hefur látið til sín taka á því sviði en þekktasta framlag hans til málsins er kvikmyndin Óþægilegur sannleikur sem hlaut Óskarsverðlaunin í fyrra.

Aðrir sem komu til greina voru Evrópusambandið, Martti Ahtisaari, fyrrverandi forseti Finnlands, Rebíja Kadeer, sem berst fyrir réttindum Úighúr-þjóðarinnar í Kína, rússneski mannréttindalögfræðingurinn Lydia Júsúpova og pólska konan Irena Sendler sem bjargaði gyðingabörnum í síðari heimstyrjöld.

Verðlaunin verða afhent í Ósló tíunda desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×