Erlent

Maddie var á lífi á ströndinni

Erfðaefni úr Maddie McCann fannst á strönd í Portúgal.
Erfðaefni úr Maddie McCann fannst á strönd í Portúgal.
Einkaspæjari sem McCann-hjónin réðu til að leita að dóttur sinni Madeleine McCann telur sig hafa fundið erfðaefni úr henni á ströndinni nálægt sumarleyfisdvalarstað McCann-fjölskyldunnar í Portúgal.

Danie Krugel, fyrrverandi lögga, sem hefur sérhæft sig í að leita að fólki telur að mannræningjar Madeleine McCann hafi farið með hana í gegnum sund, vegi og vegaslóða niður að strönd. Þar hættir slóð þeirra að hans sögn og rennir það stoðum undir þá kenningu að Maddie hafi verið flutt með bát eftir að henni var rænt 3. maí síðastliðinn.

McCann-hjónin eru þess fullviss að sönnunargögn Krugels staðfesti að hin fjögurra ára gamla Maddie hafi verið á lífi þegar henni var rænt og enn sé von um að finna hana.

Krugel eyddi fjórum dögum í júlí við að rannsaka sumarleyfisdvalarstaðinn og sagði í samtali við breska vikublaðið News of the World að hann hefði fundið slóð Maddie. "Ég teiknaði upp kort og lét lögregluna hafa það. Ég get ekki gefið upp nein smáatriði en nú er það undir lögreglunni komið að rannsaka málið áfram," sagði Krugel.

Þrátt fyrir þetta virðist sem portúgalska lögreglan ætli ekki að gera mikið til að vinna úr því hráefni sem Krugel lét þeim í té. Talsmaður McCann-hjónanna lét hafa eftir sér að þau vonuðust til að lögreglan myndi rannsaka gögn Krugels.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×