Erlent

Lögreglumanni í máli Madeleine vísað frá

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Amaral finnst að foreldrar Madeleine fái of miklu að ráða um rannsókn bresku lögreglunnar.
Amaral finnst að foreldrar Madeleine fái of miklu að ráða um rannsókn bresku lögreglunnar.
Portúgalski lögreglumaðurinn, Goncalo Amaral, sem hefur stjórnað rannsókninni á hvarfi Madeleine McCann var leystur frá málinu í gær eftir að hann gagnrýndi störf bresku lögreglunnar.

Amaral sagði í portúgölskum fjölmiðlum að breska lögreglan hagaði rannsókn sinni eftir því sem hentaði foreldrum Madeleine. Portúgalska lögreglan vék honum úr starfinu um leið og ummælin birtust opinberlega en hefur ekki viljað gera grein fyrir ástæðum ákvörðunar sinnar opinberlega.

Ummæli Amarals voru viðbrögð hans við fréttum af því að lögreglan í Leicesterskíri væri að rannsaka tölvupóst sem vefsíðu Karls Bretaprins barst frá ónafngreindum aðila. Í bréfinu er gefið í skyn að fyrrverandi starfsmaður Marks Warner sumarhúsakeðjunnar hafi rænt Madeleine.

 

Amaral sakaði foreldra Madeleine um að birta nýjar upplýsingar daglega í því skyni að trufla rannsóknina. Eins og kunnugt er grunar portúgalska lögreglan hjónin um að hafa banað Madeleine fyrir slysni og falið líkið. Þau hafa hins vegar ekki verið ákærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×