Erlent

Tímoshenko hrósar sigri í Úkraínu

Þórir Guðmundsson skrifar

Júlía Tímoshenko er sigurvegari kosninganna í Úkraínu og verður væntanlega forsætisráðherra landsins. Flokkur Júlíu Tímoshenko fékk þriðjung atkvæða og getur með flokki Viktors Jústsénkos forseta myndað stjórn með nauman meirihluta á þingi.

Þau Tímoshenko og Jústsénko leiddu appelsínugulu byltinguna svokölluðu fyrir tæpum þremur árum. Þá varð Jústsénko forseti en hún forsætisráðherra. Hins vegar fóru þau fljótt að deila, meðal annars um einkavæðingu í Úkraínu, og eftir sjö mánuði rak forsetinn hana úr embætti.

Við tók Viktor Janúkóvits, sem er vinveittur Rússum, og höfuðandstæðingur forsetans.

Flokkkur hans fékk um þrjátíu prósent atkvæða í kosningunum. Forsetinn og Tímoshenko hafa hins vegar náð sáttum og miðað við úrslit kosninganna virðast umbótaöflin með þau tvö í forystu á ný hafa náð undirtökunum í Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×