Erlent

Friðargæsluliðar féllu í Darfur

Þórir Guðmundsson skrifar

Tíu friðargæsluliðar Afríkusambandsins létu lífið í árás skæruliða í Darfur í Súdan um helgina. Um eitt þúsund skæruliðar sem tilheyra Frelsisher Súdans réðust á stöðvar friðargæsluliða með hríðskotabyssum, sprengjuvörpum og eldflaugum.

Árásin hófst á laugardagskvöld og stóð alla nóttina. Undir lokin voru friðargæsluliðarnir umkringdir og leituðu skjóls á meðan skæruliðarnir stálu öllu steini léttara úr búðum þeirra.

Stjórnarherinn skarst í leikinn í gærmorgun og hjálpaði gæsluliðum að komast burt - en síðdegis í gær mátti sjá stjórnarhermenn ræna því sem eftir var á staðnum.

Friðargæsluliðar Afríkusambandsins komu til Darfur fyrir þremur árum til að vernda íbúa héraðsins gegn árásum skæruliða. En skæruliðar andvígir stjórnvöldum segja að gæsluliðarnir hafi smám saman snúist á sveif með stjórnvöldum.

Síðar í þessum mánuði eiga samningaviðræður að hefjast um lausn deilunnar í Darfur, og eins og svo oft þá reyna andstæðar fylkingar að treysta stöðu sína áður. Árásin á friðargæsluliðana kom í kjölfar tveggja vikna sóknar stjórnarhersins gegn uppreisnarmönnum í Frelsisher Súdans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×