Erlent

Nunnur bætast í hóp mótmælenda í Myanmar

Þórir Guðmundsson skrifar

Nunnur bættust í dag í hóp Búddamunka sem mótmæla herforingjastjórninni í Myanmar. Sjötta daginn í röð mótmæltu Búddamunkar á friðsamlegan hátt með því að ganga um götur Yangon höfuðborgar Myanmar.

Um tvö þúsund munkar hófu daginn á því að biðjast fyrir í Shwedagon pagódunni í Yangon, helgasta musteri búddista í Myanmar. Síðan gengu þeir um götur borgarinnar. Fjöldi fólks beið eftir þeim meðfram götunum og margir fögnuðu munkunum ákaft.

Í fyrsta sinn síðan mótmælin hófust bættust nú um eitt hundrað nunnur í hópinn. Í gær gengu munkarnir að heimili Aung San Suu Kyi. Sjónarvottar segja að hún hafi komið fram í dyrnar og heilsað munkunum, en hermenn í óeirðabúningi staðið á milli hennar og þeirra.

Nú eru sautján ár síðan stjórnarandstaðan undir hennar forystu vann sigur í almennum kosningum og hún hefur verið mestallan tímann síðan þá í stofufangelsi. Herforingjarnir sem stjórna landinu ætla að hittast á ársfjórðungslegum fundi í þessari viku.

Einn munkanna sem gengu um götur Yangon í dag var með gjallarhorn og hrópaði stöðugt: Uppreisn okkar verður að takast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×