Erlent

SAS flugvél nauðlendir á flugvellinum í Álaborg

Flugvél frá flugfélaginu SAS þurfti að nauðlenda á flugvellinum í Álaborg í Danmörku í dag eftir að hjólabúnaður vélarinnar bilaði í flugi. Við nauðlendingu kviknaði í öðrum hreyfli vélarinnar, sem er skrúfuvél af gerðinni Dash 8/Q400. Alls voru 76 farþegar um borð auk áhafnar en engan sakaði.

Vélin var á leið frá Kaupmannahöfn til Álaborgar þar sem hún átti að lenda um klukkan þrjú í dag. Áður en vélin lenti í Álaborg kom í ljós að bilun í hjólabúnaði vélarinnar gerði það verkum að ekki var hægt að festa hægra hjól vélarinnar niðri.

Þegar vélin lenti á flugvellinum gaf hjólabúnaðurinn eftir með þeim afleiðingum að vélin féll á aðra hliðina og á annan skrúfumótorinn. Við það kastaðist brot úr hreyflinum í flugvélabúkinn og inn í farþegarými. Nánast á sömu stundu kviknaði í hreyflinum.

Mildi þykir að enginn hafi slasast en allir farþegar fengu áfallahjálp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×