Erlent

Framtíð fríríkisins handsöluð

Eftir margra mánaða erfiðar samningaviðræður hafa Kristjaníubúar og stjórnvöld í Danmörku loks náð samkomulagi um framtíð fríríkisins.

Samkomulagið felur í sér að fasteignafélagið Realdania megi byggja allt að 24 þúsund fermetra af nýju íbúðarhúsnæði í Kristjaníu, sem þó verður að vera í stíl við þá byggð sem er þar fyrir. Þá innifelur samningurinn að ríkið megi ekki krefjast niðurrifs húsa á útivistarsvæði á jaðri fríríkisins.

Realdania borgar 60 milljónir danskra króna - um 600 milljónir íslenskra króna - fyrir byggingaréttinn.

Fríríkið Kristjanía hefur, þrátt fyrir að vera einn stærsti ferðamannastaður í Danmörku, lengi verið þyrnir í augum yfirvalda. Þar hefur kannabis verið selt í tonnatali frá því á hippatímabilinu, og þar að auki liggur fríríkið á landi í eigu ríkisins, á allra besta stað í miðborg Kaupmannahafnar.

Íbúar Kristjaníu hafa hingað til hafnað öllum tillögum um inngöngu í hefðbundið danskt samfélag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×