Erlent

Æstur múgur ræðst á lögreglumenn

Frá mótmælum gegn kynþáttahatri í borginni Marseilles í Frakklandi. Í apríl var ungur maður frá Gíneu myrtur þar í borg af hægri öfgamönnum.
Frá mótmælum gegn kynþáttahatri í borginni Marseilles í Frakklandi. Í apríl var ungur maður frá Gíneu myrtur þar í borg af hægri öfgamönnum. MYND/AFP

Hópur manna réðst að sex frönskum lögreglumönnum á flugvelli í Gíneu þegar þeir voru að flytja ólöglega innflytjendur frá Frakklandi. Sparkað var í mennina og þeir kýldir með þeim afleiðingum að þeir mörðust illa og hlutu skrámur í andliti. Árásarmennirnir voru að mótmæla harðri stefnu franskra stjórnvalda gagnvart innflytjendum.

Atvikið átti sér stað í síðustu viku. Lögreglumennirnir voru að flytja tvo ólöglega innflytjendur frá Frakklandi til Gíneu þaðan sem mennirnir eru ættaðir. Þegar þeir ætluðu að afhenda þarlendum yfirvöldum mennina réðst hópur fólks sem var í flugstöðinni á þá. Voru lögreglumennirnir kallaðir öllum illum nöfnum á meðan á barsmíðunum stóð.

Að sögn frönsku lögreglumannanna lyftu starfsbræður þeirra frá Gíneu ekki fingri til að stöðva átökin og sumir tóku jafnvel þátt í árásinni.

Frönsk stjórnvöld hafa hert verulega stefnu sína gagnvart ólöglegum innflytjendum á undanförnum árum en flestir þeirra koma frá fyrrum nýlendum Frakklands í Afríku líkt og Gíneu. Þá hafa franskir lögreglumenn einnig verið sakaðir um að beita ólöglega innflytjendur harðræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×