Innlent

Fundu tjöld Þjóðverjanna sem leitað er að á Svínafellsjökli

Þyrla frá Landheglisgæslunni fann nú á tólfta tímanum tjöld ofarlega í Svínafellsjökli og björgunarsveitarmenn, sem eru komnir á vettvang, staðfesta að þau tilheyri þýsku ferðamönnunum, sem leitað er að. Ekkert hefur hinsvegar sést til þeirra.

Þessi árangur náðist fljótlega eftir að þoku létti af svæðinu en þyrla var að flytja björgunarmenn á Hvannadalshnjúk. Jafnvel stóð til að flytja leitarmenn á fleiri tinda í dag en öllum áætlunum hefur verið breytt í ljósi þessa.

Að sögn Víðis Reynissonar, fulltrúa Ríkislögreglustjóra í leitinni, verður nú öll áhersla lögð á að leita út frá tjöldunum, bæði úr lofti og á landi. Svæðið er hins vegar mjög erfitt yfirferðar þannig að ekki verða sendir nema reyndustu björgunarmenn inn á svæðið. Þá er í ráði að björgunarsveitarmenn gangi árbakka jökulánna neðan Svínafellsjökuls.

Síðustu samskipti, sem vitað er um við mennina, eru GSM-smáskilaboð, sem annar tók við í farsíma sínum í gegnum sendinn í Skaftafelli. Reyndir löggæslu-og björgunarmenn segja að það sé í sjálfu sér ótrúlega fátítt að erlendir ferðamenn týnist hér miðað við reynsluleysi þeirra af hættulegum aðstæðum og oft lélegan búnað. Síðast hvarf erlendur ferðamaður við utanverðan Eyjafjörð fyrir fimm árum, þar sem hann var einn á ferð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×