Erlent

Gul aftur tilnefndur sem forsetaefni í Tyrklandi

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar

AK flokkurinn, sem fer með stjórnartauma í Tyrklandi, hefur staðfest að flokkurinn hyggist aftur tilnefna Abdullah Gul sem forsetaefni sitt.

Gul, sem er fyrrverandi islamisti, var einnig tilnefndur í vor við lítinn fögnuð veraldlega þenkjandi stjórnarandstæðinga og hers, sem tókst að koma í veg fyrir framboð hans þá. Það leiddi til þess að þingkosningum var flýtt og vann AK flokkurinn meirihluta sinn í þeim.

Þingið kýs í stöðu forseta, sem er fyrst og fremst táknræn, þó hann hafi neitunarvald.

Tvo þriðju hluta atkvæða þarf til að ná kjöri í fyrstu eða annarri umferð kosninganna. AK flokkurinn hefur 341 þingmann af 550 og næði því ekki að tryggja Gul kosningu. Í þriðju umferð nægir hinsvegar einfaldur meirihluti, og hefði Gul því öruggan sigur í henni.

Deniz Baykal, leiðtogi CHP, stærsta stjórnarandstöðuflokks landsins sagði pólitískar áherslur myndu breytast mikið næði Gul kjöri, og að tengsl landsins við miðausturlönd yrðu sterkari.

Óvíst er þó með lyktir mála, því tyrkneski herinn, sem lýtur á sig sem verndara veraldarsinnaðs lýðræðis, hefur margoft skorist í leikinn og gripið um valdataumana hugnist yfirmönnum hans ekki yfirvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×