Erlent

Skákborðsmorðinginn fyrir rétt

MYND/AFP

Rússneskur fjöldamorðingi hefur verið ákærður fyrir að myrða 49 manneskjur í Moskvu. Alexander Pichushkin, ætlaði sér að merkja alla 64 reitina á skákborði með nöfnum fórnarlamba sinna og er hann því kallaður „skákborðs morðinginn" af rússneskum fjölmiðlum. Þegar hann var handtekinn játaði hann fyrir lögreglu að hafa myrt 61 mann í Bittsa garðinum í Moskvu.

Lögregla hefur þegar aflað nægra sannana til þess að ákæra manninn fyrir 49 morð en aðeins hafa fundist 14 lík sem stendur. Að því er fjölmiðlar greina frá sagði Pichushkin lögreglumönnum að hann myrti fólk sem hefði kvartað yfir vandræðum í lífi sínu.

„Ég er mikill skákáhugamaður," sagði morðinginn þegar hann lét lögregluna hafa minnisbók sína þar sem morðin voru skrásett. Í bókinni er að finna teikningu af skákborði og á hverjum reit er að finna upplýsingar um fórnarlambið, hvenær það var drepið auk annara upplýsinga.

Flest fórnarlamba Pichushkin voru karlmenn á aldrinum 50 til 70. Hann kemur fyrir rétt í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×