Erlent

Fuglaflensa dregur konu til dauða á Balí

29 ára indónesísk kona lést úr fuglaflensu á eyjunni Balí í gær. Þetta staðfesti heilbrigðisráðuneyti landsins í dag. Þetta er fyrsta mannslát vegna fuglaflensuveirunnar á eyjunni. Samkvæmt yfirlýsingu frá ráðuneytinu lést konan með háan hita á sjúkrahúsi.

Vitað var af veirunni í fiðurfé á Balí og þótti það einungis tímaspursmál hvenær hún ylli mannfólki skaða. Hart er unnið að því að hindra útbreiðslu fuglaflensu á svæðinu.

Fimm ára dóttir konunnar sem lést hafði nýverið látist. Talið var fuglaflensa hefði dregið hana til dauða því hún hafði leikið sér innanum kjúklinga, en ekkert fékkst staðfest um það. Þá greindist tveggja ára stúlka á svæðinu með fuglaflensu en hún er á batavegi.

Fréttir af andlátinu gætu haft mikil áhrif á ferðamannaiðnað Indónesíu því eyjan Balí er vinsæll áfangastaður ferðamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×