Erlent

Forsætisráðherra Íraks boðar til neyðarfundar

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
Nouri Al-Maliki forsætisráðherra Íraks hefur kallað leiðtoga helstu stjórnmálaflokka til neyðarfundar, í þeirri von leysa ágreining sem hefur lamað ríkisstjórn hans.

Undanfarnar vikur hafa nær allir súnníar á Íraksþingi hætt. Þetta þykir lýsandi fyrir vaxandi reiði þeirra í garð shíans Al-Malíki, sem þeir segja verulega hlutdrægan og nátengdan Íransstjórn.

Í gær biðlaði einn æðsti leiðtogi Súnnía í þinginu, Adnan Al-Dulimi, til annarra Arabalanda, að hjálpa til við að stöðva það sem hann kallaði þjóðarmorð á Súnníum, sem vígasveitir styrktar og þjálfaðar af Íran stæðu fyrir.

Þrátt fyrir að Al-Malíki hafi kallað til sín menn úr öllum helstu flokkum virðist fátt benda til þess að hann muni verða við kröfum þeirra. Hann hefur ítrekað lýst því yfir að hafi Samkomulagsflokkur Súnnía, sem dró sig út úr þinginu fyrir tveimur vikum, ekki áhuga á því að taka þátt í því, séu fjölmargir tilbúnir að fylla skarð þeirra. Talið er að hann vísi þar til ættbálkaleiðtoga í vesturhluta landsins, sem hafa stutt stjórnvöld í baráttu þeirra gegn Al-Kaída.

Ástandið veldur Bandaríkjamönnum nokkrum áhyggjum, en þeir höfðu vonast til að óróaöldur í landinu lægði áður en þeir draga herlið sitt þaðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×