Erlent

Bretar aflétta banni á flutningi búfénaðar innanlands

Bresk stjórnvöld hafa afnumið bann á flutningi búfénaðar innanlands sem sett var á til að hefta útbreiðslu gin- og klaufaveiki þar í landi.Breskir bændur eru því byrjaði á ný að senda fé til slátrunar. Gin- og klaufaveiki hefur greinst á tveimur búum í Surrey og í dag er von á niðurstöðum rannsóknar á sýnum úr búfénaði frá þriðja búinu.

Gin- og klaufaveiki greindist á bóndabæ nærri Guildford í Surrey fyrir utan Lundúnir í síðustu viku. Í kjölfarið settu bresk stjórnvöld bann á flutning búfénaðar innanlands og þá bannaði Evrópusambandið útflutning á fersku kjöti, lifandi skepnum og mjólkurvörum frá Bretlandi.

Alls hefur veikin greinst á tveimur búum í Surrey og hefur öllum nautgripum þar verið slátrað. Þá var öllum naugripum einnig slátrað á þriðja búinu og sýni send til rannsóknar. Von er á niðurstöðum þeirrar rannsóknar í dag.

Bann við flutningi búfénaðar innalands fyrir utan sóttvarnarsvæðið í Surrey var afnumið á miðnætti í nótt. Stjórnvöld hvetja þó bændur til að vera vakandi og taka engar óþarfa áhættur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×