Erlent

Japanar minnast kjarnorkuárása

Áhöfn sprengjuflugvélarinnar Enola Gay sem varpaði fyrstu kjarnorkusprengjunni á Japan.
Áhöfn sprengjuflugvélarinnar Enola Gay sem varpaði fyrstu kjarnorkusprengjunni á Japan. MYND/AFP

Íbúar japönsku borgarinnar Nagasaki minnast þess í dag að sextíu og tvö ár eru liðin síðan Bandaríkjamenn vörpuðu kjarnorkusprengju á borgina. Á Íslandi verður kertum verður fleytt við Tjörnina í Reykjavík og Minjasafnstjörnina á Akureyri.

Bandaríkjamenn vörpuðu tveimur kjarnorkusprengjum á Japan í síðari heimsstyrjöldinni. Fyrri sprengjunni var varpað á borgina Hiroshima þann 6. ágúst 1945 og þeirri seinni á Nagasaki þremur dögum seinna. Talið er að um 150 þúsund manns hafi látist samstundis í sprengjuárásunum og mörg þúsund seinna af völdum geislavirkni og annarra sára. Sex dögum eftir árásina á Nagasaki gáfust Japanar svo upp.

Ákvörðun bandarískra stjórnvalda um að beita kjarnorkuvopnum á Japan hefur lengi verið gagnrýnd og telja margir að hún hafi verið óþörf til að binda endi á styrjöldina. Benda þeir sömu á að japanar hafi verið að þrotum komnir og aðeins tímaspursmál hvenær þeir myndu gefast upp. Bandaríkjamenn hafa þó sagt að með því að varpa sprengjunum hafi þeir komið í veg fyrir beina innrás á Japan sem hefði kostað mun fleiri mannslíf.

Árásanna verður minnst á Íslandi í kvöld þegar kertum verður fleytt við Tjörnina í Reykjavík og Minjasafnstjörnina á Akureyri. Með því vilja kertafleytingarmenn einnig leggja áherslu á kröfuna um friðsaman og kjarnorkuvopnalausan heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×