Erlent

Alþjóðlegt friðargæslulið kemur of seint fyrir of marga

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur ákveðið að senda tuttugu sex þúsund manna alþjóðlegt friðargæslulið til héraðsins Darfur í Súdan. Allt of seint fyrir of marga segir framkvæmdastjóri Mannréttindavaktarinnar en yfir tvö hundruð þúsund manns hafa látið lífið í átökum í héraðinu síðastliðin fjögur ár.

Um er að ræða sameiginlegt friðargæslulið Afríkusambandsins og Sameinuðu þjóðanna en það kemur til með að leysa af hólmi lið sjöþúsund friðargæsluliða Afríkusambandsins sem hafa verið að störfum í Darfur.

Fjögur ár eru síðan að til átaka kom á svæðinu en frá þeim tíma hafa uppreinsnarmenn barist við stjórnarher Súdans og Janjaweed hersveitirnar sem eru hliðhollar stjórnarhernum.

Þrátt fyrir að sjö þúsund friðargæsluliðar Afríkubandalagsins hafi verið að störfum í héraðinu að undanförnu þá hefur það ekki orðið til þess að stemma stigu við ofbeldinu.

Átökin hafa frá árinu 2003 kostað yfir tvö hundruð þúsund manns lífið og yfir tvær milljónir manna hafa þurft að flýja heimili sín.

Súdönsk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau muni starfa með sameiginlega friðargæsluliðinu. Framkvæmdastjóri Mannréttindavaktarinnar segir ákvörðunina um að senda alþjóðlegt friðargæslulið koma of seint fyrir fjölmarga íbúa héraðsins. Hann vonast þó til að koma friðargæsluliðsins muni verða til þess að þeir fjölmörgu sem eru á vergangi í héraðinu geti snúið aftur til síns heima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×