Erlent

Bergman leikstýrði yfir sextíu kvikmyndum

Sænski kvikmyndaleiksstjórinn Ingmar Bergman lést í morgun á heimili sínu í Faro í Svíþjóð, 89 að aldri. Bergman leikstýrði yfir sextíu kvikmyndum yfir ævina og hlaut óskarsverðlaunin fyrir þrjár myndir.

Ingmar Bergmann var víða talinn einn besti kvikmyndaleikstjóri og handritahöfundur tuttugustu aldarinnar. Hann hóf kvikmyndagerð ungur að aldri og hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir myndir sínar. Myndir Bergmans voru tilnefndar níu sinnum til óskarsverðlauna og hann fékk Óskarinn fyrir þrjár myndir, meðal annars fyrir frægustu mynd sína Fanny og Alexander árið 1982.

Þekktustu myndir hans eru meðal annars Villt jarðarber og Sjöunda innsiglið. Bergman fjallaði oft um erfið viðfangsefni í myndum sínum og voru samskipti kynjanna honum sérstaklega hugleikin. Á áttunda áratugnum lenti hann í útistöðum við sænsk yfirvöld vegna vangoldinna skatta og fékk í kjölfarið taugaáfall eftir að hann var handtekinn og yfirheyrður í marga tíma.

Bergman flutti til Munchen og kom ekki til Svíþjóðar í 9 ár. Hann giftist fimm konum yfir ævina og eignaðist níu börn. Fyrstu fjögur hjónaböndin enduðu með skilnaði en síðasta konan hans dó úr krabbameini 1995. Hann settist í helgan stein 84 ára að aldri árið 2003 en árið áður hafði hann nýlokið við síðustu sjónvarpsmynd sína Saraband sem var tveggja tíma löng og sýnd í sænska sjónvarpinu í desember 2003.

 

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×