Erlent

Átta milljónir Íraka búa við sára fátækt

Þriðji hver Íraki þarf á neyðaraðstoð að halda og hátt í átta milljónir þeirra búa við sára fátækt samkvæmt nýrri skýrslu bresku hjálparsamtakanna Oxfam.

Skýrslan er unnin í samvinnu við írösk hjálparsamtök þar sem fram kemur að yfirvöldum í Írak hefur ekki tekist að útvega um átta milljónum íbúa landsins neyðarskýli og grunnþjónustu á borð við hreint drykkjarvatn, mat og heilbrigðisþjónustu. Í skýrslunni er varað við áframhaldandi ofbeldi í Írak og er talið að ástandið í landinu hafi ekki verið eins slæmt frá innrásinni 2003. Hátt í fjórar milljónir Íraka hafa orðið fyrir alvarlegu ofbeldi og hundruð þúsunda látið lífið. Meira en fjórar milljónir íraka hafa þurft að flýja heimahaga sína til annarra staða í Írak eða til annarra nágrannaríkja.

Auk þess sem vopnuð átök hafa mikil áhrif á Íraka er talið að mikill meirihluti þeirra búi við vannæringu og sjúkdóma. Í landinu búa um 26 og hálf milljón Íraka og sýna rannsóknir að um 70 % þeirra lifi við mikinn vatnsskort. Fyrir innrásina 2003 var það tæplega helmingur þjóðarinnar sem bjó við vatnsskort. Þá er talið að einungis 20 % þjóðarinnar hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu. Jeremy Hobbs yfirmaður hjá Oxfam samtökunum segir að miklu meira fjármagn þurfi frá alþjóðasamfélaginu og írösku ríkisstjórninni til að bæta ástandið í landinu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×