Erlent

Brown reyndi að slá á sögur um kólnandi samskipti

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, flaug til fundar við Bush Bandaríkjaforseta í dag. Brown reyndi fyrir ferðina að slá á sögur um að samskipti þjóðanna færu kólnandi og lagði áherslu á mikilvægi þeirrar öflugu samvinnu sem ríki þeirra á milli.

Þetta er fyrsta ferð nýja forsætisráðherrans til Bandaríkjanna frá því að hann tók við embættinu af Tony Blair. Blair lagði mikla áherslu á góð samskipti milli þjóðanna tveggja og þótti mörgum honum hann jafnvel of hliðhollur Bush. Margir hafa velt fyrir sér hvernig samskipti þjóðanna komi til með að þróast eftir að nýr maður tók við hans embætti. Vangaveltur hafa verið uppi um hvort að forsætisráðherraskiptin í Bretlandi muni veikja sambandið á milli þjóðanna tveggja og hafa ráðherrar Brown jafnvel gefið það í skyn. Stjórnmálaskýrendur hafa margir hverjir hvatt Brown til að fara þá leið sem forverar hans Margaret Thatcher og Winston Churchill fóru. Þau áttu bæði náin samskipti við Bandaríkjastjórn en stóðu föst á sínum eigin markmiðum og stefnu en mörgum þótti Blair fylgja Bush í of mikilli blindni.

Brown reyndi fyrir ferðina að slá á sögur um að samskipti þjóðanna færu kólnandi og lagði áherslu á mikilvægi þeirrar öflugu samvinnu sem ríki þeirra á milli. Hann sagði samband þjóðanna geta orðið enn betra á komandi árum.

Á fundi sínum í dag ætla Brown og Bush meðal annars að ræða Íraksstríðið. Enn óljóst er hvort koma Brown í embættið breyti einhverju um veru breskra hermanna í Írak og hvort hann ákveði að kalla herlið Breta heim. Fimm þúsund og fimm hundruð breskir hermenn eru í Írak og hafa Bretar verið helstu bandamenn Bandaríkjamanna í stríðinu. Í lok maí greindi breska dagblaðið Sunday Telegraph frá því að ráðgjafar George Bush bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu telja að Brown kalli herlið Breta heim frá Írak næstunni og sögðu forsetanum að vera viðbúin því.

Þeir Brown og Bush hittast í sumarbústað forsetans í Camp David en Brown hittir síðar Ban Ki-moon aðalritara Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×