Erlent

Hætta á flóðum hefur rénað

Lík nítján ára pilts fannst umflotið vatni á vestur-Englandi í nótt en piltsins hafði verið saknað í um viku, eða frá því flóðin á svæðinu hófust. Hætta á flóðum á Bretlandseyjum hefur minnkað en rigningar sem gengu yfir suðvestur England í nótt höfðu töluvert minni áhrif en spáð hafði verið.

Lögreglan í Gloucterskíri á Englandi hafði varað íbúa í héraðinu við að dvelja í húsum sínum í nótt af ótta við að þeir yrðu innlyksa þar sem spáð var miklum rigningum. Mun minni rigndi hins vegar en spáð var. Rigningar næturinnar höfðu lítil áhrif á svæðinu og hefur hætta á flóðum rénað.

Alls hafa níu farist í flóðunum en í nótt fannst lík nítján ára pilts, umflotið vatni, en hans hafði verið saknað í um viku eða frá því að flóðin hófust.

Flóðin eru ein þau verstu í sögu Bretlandseyja og þurftu þúsundir manna að flýja heimili sín. Margir snéru síðari hluta vikunnar aftur til síns heima en þeim mætti gífurlegt eignartjón og vatns- og rafmagnsskortur. Á annað hundrað þúsund íbúar eru enn án drykkjarvatns vegna flóðanna og tugir þúsunda án rafmagns. Tekist hefur að tryggja mörgum íbúum svæðanna aðgang að vatni á ný. Ekki er þó talið óhætt að drekka það þar sem óttast er þó að vatnið sé sýkt og hafa íbúar því fengið drykkjarvatn í flöskum. Vonast er þó til að íbúar fái drykkjarhæft vatn úr krönum sínum á allra næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×