Erlent

Flóttamenn fá að fara í gegnum Ísrael til Vesturbakkans

Liðsmenn Fatah-hreyfingarinnar.
Liðsmenn Fatah-hreyfingarinnar. MYND/AFP

Þúsundir palestínskra flóttamanna sem nú eru strandaglópar í Egyptalandi hafa fengið leyfi til að fara til Vesturbakkans samkvæmt samkomulagi egypskra og ísraelskra stjórnvalda. Fólkið flúði til Egyptalands frá Gazasvæðinu eftir að Hamas-samtökin tóku völdin þar fyrr í sumar.

Egypskir starfsmenn Rauða hálfmánans telja að minnsta kosti fimm þúsund flóttamenn frá Gazasvæðinu dvelji nú í flóttamannabúðum í Egyptalandi við landamæri Ísrael. Reiknað er með því að fyrstu flóttamennirnir fái að fara yfir landamærin til Ísraels á morgun. Fólkið verður síðan flutt til Vesturbakkans.

Landamærin milli Egyptalands og Gazasvæðisins hafa verið lokuð allt frá því Hamas liðar tóku völdin á svæðinu í síðasta mánuði. Hamas samtökin hafa neitað að hleypa flóttafólkinu, sem flest styður Fatah hreyfinguna, yfir sitt yfirráðarsvæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×