Erlent

Sameinuðu þjóðirnar veita fé í uppbyggingu skólastarfs í Jórdaníu og Sýrlandi

Sameinuðu þjóðirnar hafa ákveðið að veita tæpum 130 milljónum bandaríkjadala, andvirði tæpra átta milljarða íslenskra króna í uppbyggingu skólastarfs fyrir börn íraskra flóttamanna í Sýrlandi og Jórdaníu. Yfir hundrað og fimmtíu þúsund írösk flóttamannabörn búa þar og eiga þess ekki kost að ganga í skóla.

Fjármagn Sameinuðu þjóðanna fer fyrst og fremst í að hjálpa yfirvöldum í Sýrlandi og Jórdaníu að byggja upp skóla, þjálfa kennara, greiða skólagjöld og útvega bækur fyrir þúsundir íraskra flóttamannabarna sem hafa flúið með fjölskyldum sínum vegna stríðsástandsins í Írak. Yfir fimm hundruð þúsund írösk börn á skólaaldri eru í Sýrlandi og Jórdaníu og hafa 150 þúsund þeirra ekki aðgang að skólakerfinu. Hátt í þúsund flóttamenn hafa flúið til Jórdaníu síðustu ár og hafa yfirvöld þar í landi varla bolmagn til að veita flóttamönnum grunnþjónustu vegna fjárskorts. Þau hafa ítrekað kallað eftir meira fjármagni til að koma til móts við þarfir flóttamannanna.

Domoua Abdel Kadir flúði til Jórdaníu frá Írak fyrir þremur árum til að leita læknisaðstoðar fyrir dóttur sína. Hennar aðstæður varpa ljósi á hvernig komið er fyrir fjölmörgum Írökum sem hafa þurft að flýja til nágrannaríkjanna.

Domoua vinnur fyrir sér með því búa til körfur sem hún selur á markaðnum en það dugar tæplega fyrir mat. Dóttir hennar Sally lést í byrjun þess árs og var grafin rétt fyrir utan Amman. Nú óttast Domoua að sonur hennar Jamal komist ekki í skóla í Jórdaníu nema þau hafi dvalarleyfi.

Fyrir utan þann fjölda flóttamanna sem flúið hefur til Jórdaníu hefur ein og hálf milljón Íraka flúið til Sýrlands. Fjögur hundruð þúsund Írakar hafa flúíð til Egyptalands og Líbanon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×