Erlent

130.000 heimili vatnslaus í Gloucesterskíri

Spáð er enn meiri rigningu í Englandi og Wales yfir helgina og gæti það aukið verulega á flóðahættu á þeim svæðum. Í kringum 130.000 heimili í Gloucesterskíri eru enn vatnslaus og talið er að ástandið muni ekki lagast næstu daga.

Veðrið hefur verið slæmt í Bretlandi undanfarna viku og hafa flóð víða valdið gríðarlegu eignatjóni á heimilum og landsvæðum. Þúsundir íbúa flóðasvæðanna í Bretlandi eru nú án rafmagns og vatns. Talið er að drykkjarvatn á sumum svæðum sé sýkt og rottur herji á mörg flóðahúsanna.

Þetta eru stærstu flóð í sögu Bretlands í sextíu ár. Veðurfræðingar spá ekki góðu veðri um helgina og er talið að það muni rigna töluvert áfram. Gloucesterskíri í suðvestur Englandi hefur farið verst út úr flóðunum síðustu daga og eru um 130 þúsund heimili vatnslaus. Björgunarsveitir reyna eftir fremsta megni að koma hreinu drykkjarvatni til íbúa svæðisins þar sem allt drykkjarvatn er talið sýkt.

Júlí mánuður var einn sá heitasti í Bretlandi í fyrra en rignt hefur látlaust í þessum mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×