Erlent

Fjórir létust í þyrluslysi í Arisona ríki

Fjórir létust þegar tvær þyrlur í eigu bandarískra sjónvarpsstöðva í Arisona ríki hröpuðu til jarðar í gær. Þyrlurnar hröpuðu báðar á skólalóð í borginni Phoenix eftir að þær höfðu verið að mynda lögregluna elta vörubíl.

Þyrlurnar tvær sem hröpuðu voru í eigu svæðissjónvarpsstöðvanna í borginni Phoenix. Þær voru að mynda lögregluna elta vörubíl í miðborg Phoenix í beinni útsendingu og flugu mjög nálægt hvor annarri. Talið er að þær hafi rekist hvor á aðra og hrapað til jarðar. Eldur kom upp á svæðinu eftir að þær skullu til jarðar og svartan reyk lagði yfir miðborgina.

Engan annan sakaði þegar þær hröpuðu. Í þyrlunum voru tveir fréttamenn og tveir flugmenn og létust þeir samstundis. Áhorfendur gátu ekki séð þegar slysið átti sér stað þar sem myndavélunum var snúið niður og sambandið rofnaði. Þyrlur frá fimm öðrum sjónvarpsstöðvum í Phoenix voru að mynda eltingarleik lögreglunnar í beinni útsendingu ásamt þyrlunum sem hröpuðu.

Þegar slysið varð hættu þær að mynda eltingarleikinn og mynduðu slysið í staðinn. Allt tiltækt slökkvilið í borginni var kallað á vettvang til að slökkva eldinn. Ökumaður vörubílsins sem allir veittu eftirför var handtekinn skömmu síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×