Erlent

Manntjón varð þegar lest skall á hópferðabíl

Jón Hákon Halldórsson skrifar

Átta manns létust og á þriðja tug slösuðust þegar lest rakst á hópferðabíl í Gura Ocnitei í Rúmeníu. Slysið varð rétt fyrir klukkan þrjú í dag að íslenskum tíma. Lestin skall á vinstri hlið bílsins og dró hann þrjú hundruð metra eftir veginum.

AP fréttastofan hefur eftir rúmensku fréttastofunni Rompres að fimm manns hafi látist samstundis og aðrir þrír á leið á sjúkrahús. Tuttugu og fjórir liggja slasaðir á spítala og eru að minnsta kosti níu alvarlega slasaðir.

Að minnsta kosti 30 manns voru í bílnum og voru farþegar á leið úr brúðkaupi þegar atvikið varð. Vitni að atburðinum segja að farþegar hafi gert ökumanni bílsins viðvart um lestina en hann hafi ekki hlýtt viðvörunum. Rúmenska lögreglan rannsakar nú aðdraganda slyssins.

Að minnsta kosti 26 manns létust og 20 slösuðust þegar hópferðabíll rann niður í gljúfur í Grenoble Frakklandi í morgun og varð alelda á svipstundu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×