Erlent

Umferðaröngþveiti í Bretlandi vegna rigninga

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Algjört umferðaröngþveiti og ringulreið skapaðist á fjölda aðalumferðaræða í Englandi í gær og nótt vegna úrhellisrigningar. Margir sátu fastir í bílum sínum í meira en fjórtán klukkustundir en helgin er ein mesta ferðahelgi sumarsins.

Þau svæði sem verstu urðu úti eru í kringum Worchester og Gloucester.

Margir sátu fastir í bílum á M5 hraðbrautinni í rúmar 14 klukkustundir án vatns og matar. Skólaleyfi hófust í landinu fyrir helgi og virðist slæm spá ekki hafa hindrað fjölskyldufólk í að leggja í hann, en þetta er ein mesta ferðahelgi sumarsins. Foreldrar sem festust í umferðinni lentu því í því að þurfa einhvern veginn að hafa ofan af fyrir börnunum í óveðrinu.

Sumir neyddust til að halda kyrru fyrir í bílunum, en margir yfirgáfu þá og leituðu í neyðarskýli þar sem um tvö þúsund manns gistu í nótt. Sky fréttastofan greindi frá því að barn hafi fæðst í bíl sem var fastur í umferðaröngþveitinu.

Ökumenn voru því fegnir þegar losnaði loks um umferðarhnútinn í morgun og hægt var að halda ferðinni áfram.

Gefin hafði verið út viðvörun til ökumanna um að vera sem minnst á ferðinni. Á sumum stöðum í Bretlandi var úrkoman á nokkrum klukkutímum jafn mikil og í heilum mánuði.

Áfram er spáð mikilli rigningu og slæmu veðri og hafa víða verið gefnar út flóðviðvaranir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×