Erlent

Einn lést og þrír særðust í Írak

Að minnsta kosti einn breskur hermaður týndi lífi og þrír særðust í árás á búðir andspyrnumanna í borginni Basra í Suður-Írak í morgun. Áhlaupið var það umfangsmesta sem breska herliðið í Írak hefur skipulagt og staðið fyrir á þessu ári. Um eitt þúsund breskir hermenn tóku þátt í aðgerðinni og voru þyrlur og herflugvélar hermönnum á jörðu niðri til stuðnings. Talsmaður breska hersins segir fjölmarga grunaða andspyrnumenn hafa verið handtekna. Til átaka hefur komið í borginni síðustu vikur þar sem nokkrir hópar sjía-múslima berjast um völdin í Basra og nágrenni þar sem mikið af olíu er að finna. Rúmlega hundrað og fimmtíu breskir hermenn hafa fallið í Írak frá innrásinni í landið 2003.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×