Erlent

Kæra 28 nafnlausa notendur spjallborðs

Ósvífnir einstaklingar nota Netið til að koma höggi á fólk.
Ósvífnir einstaklingar nota Netið til að koma höggi á fólk. MYND/Getty Images

Tvær bandarískar konur hafa höfðað mál á hendur 28 notendum spjallborðs vegna ærumeiðinga og hótana um líkamsmeiðingar. Á spjallborðinu koma einstaklingar fram undir dulnefni og hafa konurnar krafist þess að fá allar þær upplýsingar frá umsjónarmönnum borðsins og netþjónustuaðilum sem gætu afhjúpað hina nafnlausu einstaklinga. Sérfræðingar telja fordæmisgildi málsins mikið og það muni hafa mikil áhrif á framtíð nafnlausra spjallborða á Netinu.

Um er ræða spjallborð sem er aðallega notað af lögfræðinemum í Bandaríkjunum. Konurnar tvær telja sig hafa orðið af atvinnutækifærum vegna hótana og ófrægingarherferðar 28 notenda spjallborðsins.

Málið á rætur sínar að rekja til ársins 2005 en þá hóf notandi sem kallar sig StanFORDtroll spjallþráð þar sem konurnar voru kallaðar öllum illum nöfnum og þær sagðar vera lélegir námsmenn. Þá var þeim hótað líkamsmeiðingum og nauðgunum. Alls stóðu hótanirnar í tvö ár áður en konurnar ákváðu að kæra.

Lögfróðir menn í Bandaríkjunum telja málið geti haft mikið fordæmisgildi og mögulega haft áhrif á framtíð nafnlausra spjallborða á Netinu. Að þeirra mati gengur það ekki að ósvífið fólk í skjóli nafnleyndar noti Netið til að skaða einstaklinga með rógburði og hótunum.

Ljóst er að ekki verður auðvelt að afhjúpa hina nafnlausu notendur. Lögmenn kvennanna tveggja hafa nú þegar stefnt netþjónustufyrirtækinu og umsjónarmönnum spjallborðsins og krafist þess að fá allar þær upplýsingar sem gætu leitt í ljós nöfn þeirra sem standa á bak við hótanirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×