Erlent

McCann hjónin gagnrýna De Telegraaf

Vera Einarsdóttir skrifar
MYND/AFP
Foreldrar Madeleine McCann gagnrýna Hollenska dagblaðið De Telegraaf fyrir að birta nafnlaust bréf sem blaðinu barst með upplýsingum um hvar lík stúlkunnar sé grafið.

Faðir stúlkunnar skrifar á heimasíðu sem haldið er úti vegna leitarinnar að þau hjónin séu mjög vonsvikin yfir því að blaðið skuli hafa birt bréfið áður en lögreglu gafst kostur á að rannsaka svæðið. Foreldrar stúlkunnar telja þetta mikið ábyrgðarleysi af hálfu blaðsins og telja að lögreglan hefði þurft að fá næði til að leita á svæðinu án ágangs fjölmiðla. Faðir stúlkunnar bendir einnig á hversu óþægilegt það hafi verið fyrir þau hjónin að fá upplýsingar um hið nafnlausa bréf í gegnum blaðið. Í bréfinu stóð að telpuna væri að finna undir trjám og grjóti 15 km frá Praia da Luz þar sem henni var rænt. Fjöldi lögreglumanna hefur nú rannsakað svæðið en ekkert fundið.

Dagblaðið sagði frá því að bréfið væri svipað og bréf sem það fékk fyrir ári síðan. Það benti með þó nokkurri nákvæmni á staðinn þar sem lík tveggja Belgískra stúlkna sem leitað hafði verið að fannst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×