Erlent

Leggja niður vinnu til að mótmæla uppsögnum

Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn.

Fréttamenn danska ríkisútvarpsins, Danmarks Radio, lögðu í dag niður vinnu til að sýna félögum sínum sem sagt var upp í dag stuðning. Þetta þýðir samkvæmt dönskum vefmiðlum að hvorki verða kvöldfréttir í útvarpi né sjónvarpi og þá verður lágmarksfréttaflutningur á vef Danmarks Radio.

Fjölmörgum fréttamönnum DR bæði í Kaupmannahöfn og annars staðar í Danmörku hefur verið sagt upp á undanförnum dögum. Það er liður í víðtækum sparnaðaraðgerðum stofnunarinnar vegna þess að bygging nýrra höfuðstöðva DR á Amager fór á annan tug milljarða fram úr áætlun.

Fréttamenn DR mótmæla ómanneskjulegum aðferðum við uppsagnir á síðustu mánuðum og segjast ekki sætta sig við að þeir, hlustendur og áhorfendur gjaldi fyrir mistök stjórnar DR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×