Enski boltinn

Slúðrið á Englandi í dag

Carlos Tevez er í slúðrinu á hverjum degi um þessar mundir
Carlos Tevez er í slúðrinu á hverjum degi um þessar mundir NordicPhotos/GettyImages

Breska slúðurpressan er full af safaríkum fréttum af leikmannamarkaðnum í dag og sem fyrr er mikið rætt um menn sem talið er víst að skipta muni um heimilisfang í sumar. Einn þeirra er framherjinn Darren Bent hjá Charlton, en Star segir að West Ham muni kaupa hann á 18 milljónir punda í sumar og greiða honum 80,000 pund í vikulaun.

Blaðið segir að þeir Hayden Mullins og Marlon Harewood muni fara til Charlton í skiptum fyrir um 12 milljónir punda og fari þar að vinna aftur með fyrrum stjóra sínum Alan Curbishley. The Sun segir að danski leikmaðurinn Dennis Rommendahl muni ganga í raðir franska liðsins Rennes fyrir hálfa milljón punda.

Claudio Ranieri hjá Juventus mun bjóða Liverpool að skipta á David Trezeguet og Peter Crouch - Mail. Arsene Wenger stjóri Arsenal vill líka hreppa Trezeguet til að geðjast landa hans Thierry Henry - The Sun. Þá er Arsenal einnig sagt ætla að kaupa hollenska landsliðframherjann Ryan Babel hjá Ajax - Mirror. Verði af því gæti svo farið að Freddie Ljungberg færi frá Arsenal, en hann hefur verið orðaður mikið við Portsmouth - Star.

Harry Redknapp stjóri Portsmouth er að keppast við m.a. Werder Bremen um að landa miðjumanninum Alou Diarra frá Lyon - Star. Sunderland ætlar að bjóða í framherjann David Nugent hjá Preston, en hann er metinn á 6 milljónir punda - Mirror.

Framtíð framherjans Carlos Tevez hjá West Ham mun ráðast á næstu viku þar sem Manchester United og Inter Milan eru talin líklegustu liðin til að hreppa hann - The Times. Þá segir Express að Inter muni bjóða West Ham 30 milljónir punda í Tevez, en að Manchester United muni líklega reyna að fá hann að láni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×