Erlent

Gat á hitahlíf Atlantis

MYND/AP

Bandaríska geimferjan Atlantis lagðist upp að alþjóðlegu geimsstöðinni nú undir kvöld heilu og höldnu. Á leiðinni að stöðinni kom í ljós lífið gat sem hafði komið á hitahlíf geimferjunnar.

Það mun vera um 10 sinnum 15 sentímetrar á stærð og hafa stjórnendur ferjunnar tekið myndir af því sem sendar verða Bandarísku geimferðastofnuninni, NASA, til rannsóknar. Kanna á hvort gatið valdi vandræðum þegar geimferjan snýr aftur til jarðar.

Sams konar gat kom á Discovery-geimferjuna á ferðum hennar árið 2005 og 2006 án þess að það ylli vandræðum. Telji verkfræðingar NASA hins vegar að ekki sé hægt að fljúga geimferjunni aftur til jarðar vegna gatsins þurfa geimfararnir að fara í geimgöngu og gera við gatið.

Atlantis verður 11 daga við alþjóðlegu geimsstöðina en þetta er fyrsta ferð ferjunnar út í geiminn á þessu ári. Farið var með varahluti í geimsstöðina auk þess sem vaktaskipti eru í stöðinni hjá einum starfsmanna hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×