Erlent

Réttað verði yfir Lugovoj í þriðja landi

Andrei Lugovoj hefur þvertekið fyrir að hafa myrt Litvinenko.
Andrei Lugovoj hefur þvertekið fyrir að hafa myrt Litvinenko. MYND/AP

Bresk stjórnvöld vinna nú að málamiðlunartillögu í deilunni við Rússa um framsal Andreis Lugovoj, fyrrverandi njósnara hjá KGB, sem ákærður hefur verið fyrir að myrða annan fyrrverandi njósnara KGB, Alexander Litvininenko.

Breska blaðið Sunday Times greinir frá því í dag að Bretar hyggist stinga upp á að réttað verði yfir Lugovoj annars staðar en í Bretlandi eða Rússlandi.

Rússnesk stjórnvöld hafa neitað að framselja Lugovoj til Bretlands. Þau segja bresk yfirvöld ekki hafa lagt fram nægar sannanir fyrir því að Lugovoj hafi eitrað fyrir Litvinenko með geislavirka efninu pólon-210 á fundi þeirra í Lundúnum í nóvember síðastliðnum. Hefur Pútín Rússlandsforseti meðal annars sagt kröfur Breta hlægilegar.

Talsmaður Tonys Blair, forsætisráðherra Bretlands, sagði frétt Sunday Times byggða á getgátum og að bresk stjórnvöld væru biðu enn eftir svörum frá Rússum um kröfu sína. Blair og Pútín ræddu málið á fundi átta helstu iðnríkja heims í síðustu viku en komust þá ekki að samkomulagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×