Erlent

Rússar ítreka andstöðu sína við eldflaugavarnarkerfi

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, er hér ásamt starfsbróður sínum frá Srí Lanka.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, er hér ásamt starfsbróður sínum frá Srí Lanka. MYND/AP

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, ítrekaði í dag varnaðarorð rússneskra stjórnvalda vegna fyrirhugaðs eldflaugavarnarkerfis Bandaríkjamanna í Austur-Evrópu. Hvatti hann Bandaríkjamenn til að fresta allri uppbyggingu kerfisins til frekari rannsókna, ellegar gæti það flækt alvarlega deiluna við Írana um kjarnorkuáætlun þeirra.

Eins og fram hefur komið í fréttum áforma Bandaríkjamenn að byggja upp eldflaugavarnarkerfi í Póllandi og Tékklandi og segjast þeir gera það til þess að geta varist árásum frá Íran og Norður-Kóreu. Vladímír Pútín, forseti Rússlands, brást um síðustu helgi illa við hugmyndunum og hótaði að beina kjarnorkueldflaugum Rússa að evrópskum ríkjum ef Bandaríkjamenn létu ekki af þessum áformum sínum.

Á fundi í Þýskalandi í vikunni lagði Pútín svo til þá lausn í málinu að Rússar og Bandaríkjamenn notuðu saman ratstjárstöð í Aserbaídjad sem á landamæri að Íran. Bush Bandaríkjaforseti sagðist opinn fyrir hugmyndinni en lýsti því svo yfir í gær í Póllandi að stefnt yrði áfram að uppbyggingu eldflaugavarnarkerfisins.

Haft er eftir Seregi Lavrov í rússneskum fjölmiðlum í dag að Bandaríkjamenn ættu að fresta áformunum þar sem þau muni einungis flækja deilurnar um kjarnorkuáætlun Írana. Vesturveldin og Írana greinir á um áætlunina og segja Bandaríkjamenn hana yfirskin til þróunar kjarnavopna en Íranar segjast aðeins ætla að nota kjarnorku í friðsamlegum tilgangi. Sameinuðu þjóðirnar hafa þegar beitt Írana refsiaðgerðum fyrir að neita að hætta að auðga úran sem nota má í kjarnorkuvopn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×