Erlent

Óveður herjar á íbúa í austurhluta Ástralíu

Fimm eru látnir og tólf skip hafa strandað í miklu óveðri sem gengið hefur yfir austurhluta Ástralíu. Óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka þar sem að minnsta kosti þriggja er saknað eftir óveðrið.

Hundruð manna hafa verið flutt af heimilum sínum og þá eru um 200 þúsund heimili án rafmagns á svæðinu þar sem stormurinn hefur herjað. Jafnvel er búist við að rafmagni verði ekki komið aftur á fyrr en í næstu viku. Haft er eftir forstjóra rafmagnsveitna á svæðinu að stromurinn og tjónið sem hann hafi valdið sé það mesta sem orðið hafi á þessum slóðum í þrjá áratugi.

Í hópi þeirra 12 skipa sem strandað hafa í óveðrinu er stórt kolaflutningaskip sem óttast er að geti brotnað í tvennt í ölduganginum. Óttast umhverfisverndarsinnar að olía úr þessu 40 þúsund tonna skipi leki þá í hafið og valdi ómældum skaða á lífríkinu í sjónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×