Erlent

Ófreskjan frá Alabama reyndist vera heimalningur - að nafni Fred

Eins og sjá má var Fred engin smásmíði, enda stríðalinn allt sitt líf.
Eins og sjá má var Fred engin smásmíði, enda stríðalinn allt sitt líf. MYND/AP

Það vakti mikla athygli á dögunum þegar 11 ára drengur í Alabama felldi villisvín sem var það stærsta sem sögur fara af. Nú hefur hins vegar komið í ljós að villisvínið ógurlega var ekki villt, heldur var um að ræða alisvín sem kallað var Fred. Bóndi að nafni Phil Blissitt keypti grísinn árið 2004 og gaf konu sinni hann í jólagjöf.

Svínið stækkaði með árunum og að endingu ákváðu bóndahjónin að selja hann á plantekru í nágrenninu. Fjórum dögum síðar var Fred allur.

Rhonda Blissitt, eiginkona Paul sagði í viðtali við staðarblað í Alabama að hún vildi leiða sannleikann í málinu í ljós. „Þetta var ekkert villisvín," sagði hún, óhress í bragði.

Faðir drengsins sem felldi Fred fullyrðir að aðilinn sem seldi þeim veiðileyfið hefði sagt þeim að um villisvín væri að ræða.

Að endingu sagðist Blissitt vera sár yfir sögusögnum sem gengið hafa um Netið þess efnis að myndin af svíninu sé fölsuð. Það segir hann vera rangt. „Þetta var stærðarinnar svín."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×