Enski boltinn

Meðallaun í ensku úrvalsdeildinni 135 milljónir

Meðallaun knattspyrnumanna í ensku úrvalsdeildinni munu hækka um 9% á næstu leiktíð í kjölfar nýrra sjónvarpssamninga og þá verða meðallaun leikmanna í deildinni kominn upp í um 135 milljónir króna fyrir leiktíðina. Búist er við því að á næstu þremur árum eigi fyrsti knattspyrnumaðurinn á Englandi eftir að ná sér í 10 milljón punda laun fyrir árið - eða 1,2 milljarða.

Laun knattspyrnumanna á Englandi drógust lítillega saman leiktíðina 2004-2005 eða um 3% en nýju sjónvarpssamningarnir núna hafa gert það að verkum að sú leiktíð var aðeins millibilsástand. Manchester United, Chelsea, Arsenal og Liverpool greiða miklu hærri laun en önnur félög á Englandi og hefur bilið milli þessara liða og annara verið að aukast.

Það var Deloiette sem gerði rannsókn á launamálum leikmanna í deildinni og í þessari sömu könnun kemur einnig fram að enska úrvalsdeildin er langt á undan ítölsku A-deildinni og spænsku deildinni hvað varðar peningamál. Þessi auknu peningaumsvif í ensku úrvalsdeildinni má að stórum hluta rekja til sjónvarpssamninganna sem taka munu gildi á næstu leiktíð og hljóðuðu upp á 2,7 milljarða punda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×