Enski boltinn

Ranieri þegar farinn að hugsa um Manchester City

NordicPhotos/GettyImages

Þjálfarinn Claudio Ranieri hjá Parma segir að það sé freistandi tilhugsun að taka við Manchester City á Englandi og gera þar viðlíka hluti og hann gerði þegar hann tók við Chelsea á sínum tíma. Ranieri hefur verið boðinn nýr samningur hjá ítalska félaginu, en viðurkennir að það gæti verið spennandi að fara aftur til Englands og er þegar farinn að leggja línurnar.

Hann líkir veru sinni hjá Chelsea á sínum tíma við kraftaverk og segist geta endurtekið þann leik ef hann tæki við City. "Það að taka við Manchester City myndi óneitanlega minna mig á það þegar ég tók við Chelsea og náði að byggja upp gott lið fyrir innan við eina milljón punda. Það var það sem sannfærði Roman Abramovich um að kaupa félagið. Ég skapaði kraftaverk úr engu og svo kom Roman með pening inn í félagið og kom því á toppinn," sagði Ranieri og bætti við að enski boltinn væri að lokka til sín menn úr öllum heimshornum um þessar mundir.

"Enska knattspyrnan er vettvangur sem virkar dáleiðandi á menn þar sem margir af ríkustu mönnum heims gera ótrúlegustu hluti til að geta keypt sér félag. Það er meira af peningum á Englandi en á Ítalíu og ef ég færi til Englands á ný, myndi það þýða að ég yrði í aðal hringiðunni," sagði Ranieri.

Hann er enn með samningstilboð á borðinu frá ítalska félaginu en virðist þegar farinn að skipuleggja það hvað hann ætlar að gera með lið Manchester City. "Hugmyndin er sú að komast upp að hlið Manchester United sem fyrst og ég vona að ég fái tíma til að klára dæmið þar - öfugt við hjá Chelsea," sagði Ranieri í samtali við ítalska fjölmiðla í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×