Erlent

Fyrrverandi forsætisráðherra Tælands bannað að taka þátt í stjórnmálum

Stuðningsmaður flokks Shinawatra, greinilega óánægð með úrskurðinn í dag.
Stuðningsmaður flokks Shinawatra, greinilega óánægð með úrskurðinn í dag. MYND/AFP

Thaksin Shinawatra, fyrrverandi forsætisráðherra í Tælandi fær ekki að taka þátt í stjórnmálum landsins næstu fimm árin. 110 aðrir háttsettir menn úr sama flokki fengu sama dóm nú fyrir stundu. Stjórnmálaflokkurinn sem mennirnir tilheyra verður einnig leystur upp en stjórnarskrárdómstóll landsins hefur úrskurðað að flokkurinn hafi gerst brotlegur við kosningalög.

Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að tveir meðlimir flokksins hafi mútað tveimur minni stjórnmálaflokkum í landinu til þess að hafa áhrif á niðurstöður kosninga í landinu árið 2006. Skömmu síðar var Shinawatra steypt af stóli af tælenska hernum, sem sakaði hann um spillingu.

Fréttaskýrandi BBC í Tælandi segir að margir séu á því að dómurinn sé of harður og að hann muni vekja reiði í landinu. Bráðabirgðastjórnin sem komst til valda í kjölfar valdaráns hersins hefur lofað nýrri stjórnarskrá og kosningum fyrir lok þessa árs.

Forsætisráðherrann fyrrverandi er milljónamæringur og eigandi stærsta fjarskiptafyrirtækis Tælands. Hann komst í fréttir á dögunum þegar hann reyndi að kaupa enska knattspyrnuliðið Liverpool, án árangurs. Hann var líka fyrsti forsætisráðherrann í sögu Tælands sem tókst að halda lýðræðiskjörinni ríkisstjórn gangandi í gegnum heilt kjörtímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×