Erlent

Blair styður hertar refsiaðgerðir gegn Súdan

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, lýsti í morgun yfir fullum stuðningi við hertum refsiaðgerðum Bandaríkjastjórnar gegn súdönsku ríkisstjórninni vegna ástandsins í Darfur-héraði.

Bush Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær að refsiaðgerðir gegn súdönskum stjórnvöldum yrðu hertar þar sem þau væru sérlega ósammvinnuþýð við erindreka Sameinuðu þjóðanna við að koma á friði í Darfur-héraði í vesturhluta landsins.

Á fjórða tug súdanskra fyrirtækja, sem flest tengjast olíuiðnaði landsins, verður bannað að stunda viðskipti í Bandaríkjunum svo og fjórum mönnum sem taldir eru tengjast ofbeldinu í Darfur. Þá tilkynnti Bush um að leitað yrði leiða til að víkka út alþjóðlegt vopnasölubann sem Súdanar eru þegar beittir.

Tony Blair kvaðst í morgun styðja aðgerðir Bandaríkjastjórnar heilshugar en hann er á ferðalagi um Afríku. Hann skoraði ennfremur á aðildarríki öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að beita sér enn frekar fyrir friði í Darfur.

Frá því að ófriðurinn hófst í héraðinu árið 2003 hafa 200.000 manns látið þar lífið og tvær milljónir hrakist frá heimilum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×