Erlent

Þjökuð af sektarkennd

Guðjón Helgason skrifar
Enn hefur ekkert spurst til hinnar þriggja ára gömlu Madeleine McCann sem hvarf af hótelherbergi á Portúgal fyrir þremur vikum. Foreldrar hennar segjast þjökuð af sektarkennd yfir því að hafa skilið hana eina eftir með yngri systkinum sínum meðan þau snæddu kvöldverð í næsta nágrenni. Margir foreldrar hefðu þó líkast til gert það sama.

Foreldrarnir, Gerry og Kate McCann, hafa bæði sagt að þau hafi litið inn til barnanna með reglulegu millibili og þegar móðir hennar leit til með skömmu fyrir klukkan tíu var glugginn á herberginu opinn og dóttir hennar horfin.

Gerry segir að ef fólk þekki aðstæður á Praia da Luz, þar sem þau dvöldu, vissi það fólk það sem margir hafi sagt þeim hjónum - að þau hefðu gert það sama. Þeim hefði ekki þótt þetta öðruvísi en að snæða úti í garði með börnin inni í húsi - slík hafi fjarlægðin verið. Hann segir að sektarkenndin muni líkast til alltaf verða til staðar. Kate segir þau í versta falli hafa hegðað sér barnalega. Þau séu ábyrgir foreldrar.

McCann hjónin segja að þeim hafi sárnað ásakanir í þeirra garð eftir hvarf Madeleine. Þau reyni að vera bjartsýn en jafnvel smávægileg gagnrýni geri þeim erfiðara fyrir að reyna hvað þau geti til að endurheimta dóttur sína.

Portúgalska lögreglan greindi frá því síðdegis að karlmanns á fertugsaldri væri leitað vegna málsins. Hann mun hvítur á hörund og hafa verið í fylgd stúlku þegar sást til hans skammt frá hótelinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×