Erlent

Kallað eftir ljósmyndum frá Praia de Luz

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Kate McCann gengur framhjá veggspjaldi með mynd af dóttur hennar.
Kate McCann gengur framhjá veggspjaldi með mynd af dóttur hennar. MYND/AFP
Breska lögreglan hefur biðlað til almennings um að fá sendar myndir af sumarleyfisstaðnum Praia de Luz og nágrenni í Portúgal. Óskað er eftir myndum á tölvutæku formi frá tveggja vikna tímabili áður en Madeline McCann var rænt þann 3. maí. Helst eru það myndir með ókunnugum í bakgrunni sem lögreglan er á höttunum eftir.

Ekki er óskað eftir fjölskyldumyndum eða landslagsmyndum án fólks. Myndunum verður rennt í gegnum tölvuforrit sem ber kennsl á andlit miðað við gögn um grunaða frá lögreglu. Samkvæmt fréttavef Sky verða myndirnar einnig bornar saman við upplýsingar af breskum barnaníðingum og glæpamönnum.

Sérstök vefsíða hefur verið sett á laggirnar til að taka á móti myndunum.

Í dag var mínútu þögn víða í Portúgal vegna hvarfsins á Madeleine. Kate McCann móðir hennar fylgdist með þögninni og baðst fyrir í 45 mínútur í nálægri kirkju.

Faðir Madeleine, Gerry, fór í morgun í stutta heimsókn til Bretlands til að ganga frá ýmsum málum vegna hvarfs dóttur hans.

Nú eru 18 dagar síðan Madeleine hvarf og ekkert hefur spurst til hennar síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×