Erlent

Þrír yfirheyrðir vegna Madeleine

Jónas Haraldsson skrifar
Madeleine McCann.
Madeleine McCann. MYND/Vísir
Lögreglan í Portúgal yfirheyrði í gær þrjá einstaklinga og leituðu í húsi rúma hundrað metra frá íbúðinni sem fjölskylda Madeleine McCann dvaldi í.

Talið er að einn af þeim sem hafi verið yfirheyrður sé breskur maður að nafni Robert Murat. Lögreglan segir þó að enginn hafi verið handtekinn. Murat deilir húsinu sem leitað var í með móður sinni. Hún neitar að þau hafi gert nokkuð rangt.

Lögreglustjórinn staðfesti að fleiri en einn hefði verið yfirheyrður vegna málsins. Hann sagði leitina í húsinu eðlilega framþróun í rannsókninni. Fréttamaður BBC í Portúgal sagði að þar sem enginn hefði verið handtekinn væri líklegt að þeir sem hefðu verið yfirheyrðir hefðu verið yfirheyrðir sem vitni.

Lögreglan byrjaði að leita í húsinu í gærdag eftir vísbendingu frá blaðakonu Sunday Mirror. Robert Murat var í framhaldi af því yfirheyrður. Hann hefur verið viðriðinn rannsókn málsins og sagt fréttamönnum að hann hafi verið að túlka fyrir lögregluna á staðnum. Lori Campbell, blaðakona Daily Mirror, sagði Murat einfaldlega hafa verið of nærri rannsókn málsins.

Robert Murat er 41 árs og var alin upp í Portúgal en fæddur í Bretlandi. Hann lýsir sjálfum sér sem hálfportúgölskum. Móðir hans, sem býr með honum, hefur einnig aðstoðað við rannsókn málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×