Erlent

Eggert styður leitina að Madeleine McCann

Björn Gíslason skrifar
Eggert Magnússon, stjórnarformaður enska úrvalsdeildarliðsins West Ham, er í hópi þeirra sem heitið hafa fjármunum fyrir upplýsingar sem leitt geta til þess að breska stúlkan Madeleine McCann finnist.

Hún var numin á brott í Algarve í Portúgal fyrir tæpum tveimur vikum þar sem fjölskylda hennar var í fríi. Alls hefur um 2,5 milljónum punda, jafnvirði um 315 milljóna króna, verið heitið fyrir upplýsingar um stúlkuna. Auk Eggerts hafa meðal annars Simon Cowell, knattspyrnumaðurinn Wayne Rooney, rithöfundurinn JK Rowling og milljarðarmæringurinn Richard Bransson heitið fé vegna málsins.

Lögregla í Portúgal hefur viðurkennt að hún hafi engar vísbendingar um hvar Madeleine litla er niðurkomin og þá er enginn grunaður um aðild að hvarfi hennar. Foreldar stúlkunnar héldu stuttan blaðamannafund í morgun þar sem fram kom að þau myndu ekki snúa aftur til Bretlands fyrr en dóttir þeirra myndi finnast. Þau tryðu því enn að Madeleine væri á lífi.

Formlegri leit að stúlkunni, sem er fjögurra ára, hefur verið hætt en lögregla rannsakar málið enn. Telja menn jafnvel hugsanlegt að mannræningjar hafi farið með Madeleine litlu frá Portúgal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×