Enski boltinn

Tottenham og Blackburn skildu jöfn

Benni McCarthy skoraði sitt 17. mark fyrir Blackburn í kvöld
Benni McCarthy skoraði sitt 17. mark fyrir Blackburn í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Tottenham er í vænlegri stöðu með að tryggja sér sjálfkrafa þáttökurétt í Evrópukeppni félagsliða á næsta tímabili eftir 1-1 jafntefli við Blackburn á heimavelli sínum í kvöld. Benni McCarthy kom gestunum yfir eftir 32 mínútur eftir laglega sendingu frá Morten Gamst Pedersen, en Jermain Defoe jafnaði fyrir heimamenn í síðari hálfleik.

Christopher Samba fékk gullið tækifæri til að koma Blackburn 2-0 yfir en skalli hans hafnaði í þverslánni. Robbie Keane var nálægt því að stela sigrinum fyrir Tottenham þegar hann fékk úrvalsfæri í uppbótartíma, en skaut í stöngina. Jason Roberts lét reka sig af velli undir lokin fyrir að rífa kjaft við Rob Styles dómara.

Miðjumaðurinn Hossam Ghaly gæti vel hafa spilað sinn síðasta leik fyrir Tottenham í kvöld. Hann kom inn sem varamaður í fyrri hálfleik fyrir Steed Malbranque sem meiddist - en honum var skipt af velli á ný á 60. mínútu eftir afleita frammistöðu. Hann lét skoðun sína á skiptingunni í ljós með því að klæða sig úr treyjunni - kasta henni í átt að knattspyrnustjóranum og storma inn í búingsherbergi.

Bæði lið höfðu augastað á Evrópusætinu fyrir leikinn þar sem Blackburn þurfti á sigri að halda í tveimur síðustu leikjum sínum til að tryggja sér þátttökurétt. Sá möguleiki er úr sögunni eftir jafnteflið í kvöld, en Tottenham þarf nú tvö stig í viðbót til að tryggja sér Evrópusætið og á heimaleik við Manchester City á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×