Enski boltinn

Jol: Fólk er búið að gleyma Tottenham

Martin Jol og félagar geta tryggt sér Evrópusæti með sigri í kvöld
Martin Jol og félagar geta tryggt sér Evrópusæti með sigri í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Martin Jol og hans menn í Tottenham taka á móti Blackburn í eina leik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni. Jol segir að fólk sé búið að gleyma því síðustu vikur að hans menn eigi góða möguleika á að ná viðunandi árangri í deildinni í vor þó staðan hafi ekki verið glæsileg síðustu vikur.

Tottenham hefur þannig verið um miðja deild í nokkrar vikur en liðið á leik til góða við Blackburn í kvöld og með sigri í þeim leik - og sigri í lokaumferðinni - getur liðið tryggt sér fimmta sætið líkt og í fyrra. Jol segir að það yrði ásættanleg niðurstaða þegar allt er talið.

"Við erum í mjög góðri stöðu fyrir lokaleikina og enginn hefur gert sér grein fyrir því þessar síðustu vikur að við eigum leik til góða í töflunni. Fólk segir að Tottenham sé bara sæmilegt lið en við vitum að við verðum í topp sex ef við vinnum þennan leik gegn Blackburn. Það, ásamt ágætu gengi í Evrópukeppninni, yrði fínn endir á tímabilinu í mínum augum. Enginn gerði sér grein fyrir því að við værum í ágætri stöu og við getum komið nokkrum á óvart eins og við gerðum í fyrra," sagði Jol og benti á að árangur liða utan fjögurra efstu sætanna á Englandi hafi ekki verið glæsilegur á öllum vígstöðvum síðustu ár.

"Við erum enn ekki búnir að tryggja okkur fimmta sætið, en hve vel hafa félögin fyrir utan topp fjögur verið að spila í Evrópu og deildinni síðustu fjögur til fimm ár? Þau hafa alls ekki náð sér vel á strik á báðum vígstöðvum - Everton komst jú í Meistaradeildina um árið en það hafði í för með sér afleitt gengi í deildinni í kjölfarið. Þetta sýnir bara hvað það er erfitt að ná langt á öllum vígstöðvum og því held ég að við getum verið þokkalega sáttir," sagði Jol. Mikil meiðsli í herbúðum liðsins gerðu Tottenham erfitt um vik í Evrópukeppninni í vetur þar sem liðið hafði á löngum köflum t.d. aðeins einn leikfæran miðvörð í hópnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×