Erlent

Interpol rannsakar nú hvarf stúlku í Portúgal

Guðjón Helgason skrifar
Kate McCann, móðir Madeleine litlu, þriggja ára stelpunnar, sem rænt var í Portúgal í fimmtudagskvöld, grátbað í dag ræningja hennar að meiða hana ekki eða hræða. Hún bað þá sem rændu henni að láta vita hvar hægt væri að finna hana. Á blaðamannafundi portúgölsku lögreglunnar í kvöld kom fram að Alþjóðalögreglan Interpol tæki nú þátt í rannsókn málsins og allt gert til að finna stúlkuna.

Móðir Madeleine kom fram í sjónvarpi í dag og var ákall hennar átakanlegt. Hún bað mannræningjann um að flytja Madeleine á öruggan stað þar sem hægt yrði að sækja hana.

Portúgalska lögreglan hefur grun um að ræninginn sé breskur. Margir sjónarvottar hafa skýrt frá því að þeir hafi séð hálfsköllóttann mann draga litla telpu með sér að bátahöfn skammt frá hótelinu þar sem Madeleine dvaldi ásamt foreldrum sínum.

Sá möguleiki er því yfir hendi að telpan hafi verið flutt burt á báti. Fyrrverandi lögregluforingi í Portúgal sagði í sjónvarpsviðtali að leitað væri að breskum manni. Hann sagði einnig að vísbendingar væru um að ránið hefði verið vel undirbúið. Foreldrar Madeleine eru bæði læknar, og vel efnuð. Hundrað þúsund pund, rúmlega tólf og hálf milljón króna, hafa verið boðnar fyrir upplýsingar sem gætu upplýst hvarfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×