Enski boltinn

Mourinho stoltur af sínum mönnum

Mourinho faðmar hér John Terry og Frank Lampard, sem tóku vonbrigðin mjög nærri sér í dag
Mourinho faðmar hér John Terry og Frank Lampard, sem tóku vonbrigðin mjög nærri sér í dag NordicPhotos/GettyImages

Jose Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea sagðist vera afar stoltur af liði sínu þrátt fyrir að það missti titilinn í hendur Manchester United í dag eftir 1-1 jafntefli við Arsenal á útivelli. Hann segist hugsanlega stoltari af frammistöðu þeirra í vetur en þegar liðið vann titilinn síðustu tvö ár.

"Ég verð að segja að ég er hugsanlega stoltari af frammistöðu strákanna nú en þegar þeir urðu meistarar. Þeir hafa allir staðið sig eins og hetjur í vetur. Þetta var leikur til að minnast í dag og sýndi hve stór klúbbur Chelsea er," sagði Mourinho og óskaði Manchester United til hamingju með titilinn. Hann vildi þó ekki segja hreint út að besta liðið hafi unnið titilinn.

"Það skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er hvaða lið endar með flest stig í töflunni. Ég verð að óska meisturunum til hamingju, leikmönnunum, stjóranum, stuðningsmönnunum, stjórninni og öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum til að gera liðið að meisturum," sagði Mourinho.

"Ég er mjög stoltur af leikmönnum mínum, því oft þegar meistaralið missa af lestinni í baráttunni um titilinn - eiga þau það til að slá slöku við. Ekkert svoleiðis var uppi á teningnum hjá mínum leikmönnum og þeir sýndu mikinn karakter og stóðu sig frábærlega."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×