Erlent

Síðari umferð frönsku forsetakosninganna hafin

Sveinn H. Guðmarsson skrifar

Síðari umferð frönsku forsetakosninganna hófst í morgun þar sem flest bendir til að Nicolas Sarkozy muni sigra Segolene Royal nokkuð örugglega. Mikill viðbúnaður er í landinu því óttast er að óeirðir muni blossa upp sigri Sarkozy.

Rétt eins og fyrir tveimur vikum þegar 85 prósent franskra kjósenda lögðu leið sína á kjörstað í fyrri umferðinni skín sól í heiði hér í Frakklandi. Kjörsóknin hefur líka verið með ágætum það sem af er degi og á meðal þeirra sem búnir eru að kjósa eru forsetaefnin þau Nicolas Sarkozy og Segolene Royal.

Talið er nánast öruggt að Sarkozy fari með sigur af hólmi í kosningunum, síðustu skoðanakannanir kosningabaráttunnar bentu til að hann hefði allt að tíu prósentustiga forskot á keppinaut sinn.

Þótt dregið hafi í sundur með þeim Sarko og Sego, eins og fjölmiðlar hér í Frakklandi, kalla frambjóðendurna, færðist mikill hiti í kosningabaráttuna á lokasprettinum. Royal fullyrti í útvarpsviðtali á föstudaginn að óeirðir myndu brjótast út um land allt næði hinn umdeildi Sarkozy kjöri, hann sakaði hana á móti í viðtali við dagblaðið Le Parisien um dæmalausan þjösnaskap.

Hvað sem brigslyrðum þeirra líður er víst að lögreglan er því albúin að óeirðir brjótist út í borgum og bæjum landsins fari svo að Sarkozy sigri. Lögreglumenn eru til dæmis áberandi á götum Parísar enda hefur verið nokkuð um ólæti hérna síðustu daga, bílar brenndir og rúður brotnar. Allt þetta kemur í ljós þegar bráðabirgðaúrslit verða kunngjörð um leið og kjörstöðum verður lokað klukkan átta í kvöld, eða sex að íslenskum tíma. Stöð 2 verður með beina útsendingu frá París í fréttatíma sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×